Bandarísk heilbrigðis yfirvöld hafa nú skráð 3.953 dauðsföll vegna kórónuveirunnar á einum sólarhring. Þetta kemur fram í tölum frá Johns Hopkins háskóla, en tímabilið sem um ræðir er frá klukkan þrjú á föstudagsmorgni að íslenskum tíma og til klukkan þrjú um nýliðna nótt.
Á sama tímabili, sólarhring fyrr, voru skráð dauðsföll í Bandaríkjunum vegna veirunnar 2.257 talsins.
Alls eru nú skráð 37.175 dauðsföll í Bandaríkjunum sem rakin eru til covid-19, en smitin telja nú alls 710.272 í landinu. Hefur þeim nú fjölgað um 30 þúsund frá í gær, en talið er að einnig sé um að ræða mikinn fjöldi óskráðra smita í bandarísku samfélagi. Alls hafa um 60 þúsund hinna smituðu náð bata.
Ef litið er til Bandaríkjanna í heild þá er tíðni dauðsfalla 11,3 á hverja 100 þúsund íbúa. Sé litið til New York borgar, sem farið hefur verst út úr faraldrinum er tíðnin hins vegar 157,4 á hverja 100 þúsund íbúa. Til samanburðar má nefna að talan á Ítalíu er 37,7 á hverja 100 þúsund íbúa, en á Spáni 42,6.
Alls hafa verið skráð 13.202 dauðsföll af völdum covid-19 í New York. Dauðsföllin voru skráð 11.477 í gær og efur þeim því fjölgað um 15 prósent á einum sólarhring.
Samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins hafa verið tekin sýni úr alls 3,6 milljónum manna í Bandaríkjunum. Bandarísk yfirvöld stefna að því að halda sýnatökum áfram og opna samfélagið á ný í skrefum.