Little var áttræður en dánarorsök hefur ekki verið gerð opinber. Þó hefur verið gefið út að hann hafi verið veikur um nokkurt skeið.
Little hlaut þrjá lífstíðardóma fyrir morð á þremur konum í Los Angeles-sýslu á níunda áratug síðustu aldar og var að afplána þá þegar hann lést. Hann var ekki dæmdur fyrir morð fyrr en árið 2014.
Alls játaði Little á sig morð á 93 konum víðsvegar um Bandaríkin, sem hann sagðist hafa framið milli 1970 og 2005. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur sagt játningar Little trúanlegar og metur hann „skæðasta“ raðmorðingja í sögu Bandaríkjanna.
Little herjaði á konur á jaðri samfélagsins en fórnarlömb hans voru mörg vændiskonur og fíklar. Hann er í mörgum tilvikum talinn hafa kyrkt konurnar og skildi ekki eftir sig sýnilega áverka. Mörg andlátanna voru því í fyrstu ekki talin hafa borið að með saknæmum hætti.