Konur í Argentínu hafa til þessa einungis fengið að gangast undir þungunarrof ef þær hafa orðið barnshafandi af völdum nauðgunar, eða þá að líf þeirra sé talið í hættu.
Lagabreytingin, sem neðri deild þingsins samþykkti fyrr í mánuðinum og öldungadeildin samþykkti í nótt, veitir konum heimild til að rjúfa þungun fram í fjórtándu viku meðgöngu.
Öldungadeildin hafnaði sambærilegri breytingu á lögum í atkvæðagreiðslu fyrir um tveimur árum þegar 38 þingmenn greiddu atkvæði gegn, en 31 með.
Eftir maraþonumræður greiddu nú 38 þingmenn atkvæði með breytingunni, en 29 gegn. Einn þingmaður sat hjá.
Áður hafði forsetinn Alberto Fernández sagst vera samþykkur lagabreytingu, en kaþólska kirkjan í Argentínu, sem hefur mikil ítök í landinu, lagðist gegn henni.
Um mikil tímamót er að ræða í Argentínu þar sem fyrir finnst einhver strangasta löggjöf heims er varðar þungunarrof.