Í tilkynningunni segir að öllum þeim 2,9 milljónum skammta, sem bandarísk yfirvöld hafi nú þegar beðið Pfizer um að dreifa, hafi verið komið á áfangastað. „Við erum enn með milljónir skammta í lagerhúsnæðum okkar, en sem stendur, höfum við ekki fengið neinar leiðbeiningar um frekari dreifingu.“
Ekki er minnst sérstaklega á dreifingu í Evrópu eða aðra heimshluta í umræddri tilkynningu, en þó er tekið fram að félagið sé sannfært um getu þess til að dreifa 50 milljónum skammta „á heimsvísu“ fyrir lok þessa árs og allt að 1,3 milljörðum skammta fyrir árslok 2021.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því á upplýsingafundi í gær að komu bóluefnis til landsins myndi seinka og sömuleiðis muni minna magn berast til landsins en áætlað var í fyrstu. Því hafi þurft að endurskoða forgangsröðunina fyrir bólusetningu. Þórólfur kvaðst ekki búast við öðrum bóluefnum en frá Pfizer fyrr en um mitt næsta ár og því næðist gott hjarðónæmi ekki fyrr en seint á næsta ári.
Eins og staðan er nú mun bóluefni fyrir fimm þúsund manns koma til landsins um jólin og svo kemur önnur sending í janúar eða febrúar, skammtar fyrir alls átta þúsund manns.