Þau sextíu félög sem hafa selt mest og fengið flest áheit með sölu á getraunaseðlum fá aukaframlag upp á tíu milljónir króna.
Íslenskar getraunir gáfu frá sér tilkynningu þess efnis í dag. Er þetta gert vegna mikillar þátttöku íslenskra tippara á árinu 2020.
Knattspyrnufélög fá 38 milljónir króna
Það er ljóst að knattspyrnufélög landsins munu njóta hvað mest en þau fá alls 38 milljónir króna af þeim 50 sem settar voru í styrkinn.
Fyrir hvert lið í Pepsi Max deild karla eða kvenna fæst ein milljón króna. Félög með lið í báðum deildum fá þar af leiðandi tvær milljónir. Félög með lið í Lengjudeildinni fá 600 þúsund á lið og að lokum fá félög með lið í 2. deild 150 þúsund krónur á lið.
Íþróttasamband fatlaðra fær hæstan styrk
Af þeim tíu milljónum sem settar voru í aukaframlag þá fara 2.4 milljónir til íþróttasambands fatlaðra. Þar á eftir kemur Víkingur í Reykjavík með 900 þúsund krónur og knattspyrnufélagið Framherjar frá Vestmannaeyjum fékk 700 þúsund krónur.
Ástæðan er einfaldlega sú að þetta eru þrjú söluhæstu íþróttafélög landsins.