Hjónin hafa starfað náið með Donald Trump í forsetatíð hans sem ráðgjafar. Þau eiga þrjú ung börn saman og eru sögð vilja flytja suður til Flórída með það í huga að tryggja öryggi sitt betur, en eignin er við Biscayne-flóa, sem er eitt eftirsóttasta hverfið nærri Miami Beach. CNN hafði áður greint frá því að ólíklegt væri að hjónin ættu afturkvæmt til New York þar sem þau bjuggu áður.
Heimildarmaður CNN segir ekki vera vafamál að Ivanka eigi sér drauma um feril í stjórnmálum. Hún eigi þó enn eftir að ákveða hvert stefnan er sett en fyrsta skrefið sé að flytja til Flórída-ríkis.
Sjálf hefur Ivanka ekki útilokað möguleikann að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa en Adam C. Smith, viðmælandi CNN og fyrrum blaðamaður, segir ljóst að hún muni setja markið hátt.
„Það skilur eftir öldungadeildina sem möguleika,“ segir Smith. Vilji hún bjóða sig fram sem ríkisstjóra þyrfti hún þó að bíða í sjö ár, sem er lágmarksbúsetu tími í ríkinu fyrir frambjóðanda.