Liðið er án bæði Anthony Martial og Edinson Cavani sem meiddust í 3-1 sigrinum á West Ham United um helgina en hvorugur þeirra ferðaðist til Þýskalands. Þá er David De Gea tæpur og óvíst með þátttöku Luke Shaw þó báðir hafi ferðast með liðinu til Þýskalands.
Til að bæta gráu ofan á svart þá lét Mino Raiola – umboðsmaður Paul Pogba – gamminn geisa í viðtali í gær. Þar sagði hann að skjólstæðingur sinn væri óánægður í Manchester og þyrfti að yfirgefa félagið, helst strax í janúar.
De Gea missti af leiknum gegn West Ham um helgina vegna meiðsla sem hann varð fyrir gegn Southampton helgina þar á undan. Dean Henderson stóð vaktina í Lundúnum og gæti nú gert hið sama í Leipzig.
Alex Telles hefur leyst vinstri bakvarðarstöðu Man United síðan Shaw meiddist og lagði til að mynda upp eitt marka liðsins gegn West Ham. Hann hefur þó átt erfitt uppdráttar varnarlega og misst af manni sínum gegn Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni sem og gegn West Ham.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Solskjær stilli liði sínu upp í kvöld en leikurinn hefst klukkan 20.00 og er á dagskrá Stöðvar 2 Sport 4. Mögulega mun Ole stilla upp í 5-3-2 leikkerfi eða þá 4-4-2 með tígulmiðju líkt og hann gerði í 5-0 sigrinum á Leipzig er liðin mættust á Old Trafford.
Hvað varðar Leipzig þá er ómögulegt að reyna rýna í leikstíl lærisveina Julian Nagelsmann.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.