Vísir fjallaði um dóm héraðsdóms í dag en málið varðar konu sem keypti Eames-hægindastól fyrir rétt rúma milljón króna hjá Pennanum sumarið 2018. Nær allt andvirði stólsins greiddi konan með inneignarnótum sem hún hafði öðlast með bóksölu á skiptibókamarkaði Pennans og gjafakorti.
Enginn fyrirvari var gerður við greiðsluna og gefinn var út sölureikningur fyrir kaupunum. Síðar hafnaði Penninn því að afhenda konunni stólinn og sagði viðskiptin ekki hafa verið lögmæt. Pennanum var þó loks gert að afhenda konunni stólinn.
„Veit ekki hvað Pennanum gengur til“
„Fyrstu viðbrögð eru að það sé gott að fyrirtækinu sé gert að taka við eigin gjafakortum og inneignarnótum, það finnst manni mjög eðlilegt. Og svo náttúrulega, eins og er í svona málum, eru vafaatriði dæmd neytandanum í hag, sem er líka eðlilegt gagnvart venjulegum neytendarétti,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
„Maður veit ekki hvað Pennanum gengur til að afhenda ekki vöruna, því samkvæmt þessari frétt þá er enginn ágreiningur um að hún gerði þennan kaupsamning og greiddi vöruna, með inneignarnótu, gjafabréfi og 18 þúsund krónum í reiðufé.“
Upphæðin einnig óvenjuleg
Breki segir að hann hafi ekki fengið veður af sambærilegu máli áður. „Ég get ekki sagt að þetta sé dæmigert mál fyrir það sem við fáum til okkar. Þetta er óvenjulegt á marga vegu.“
Mál tengd gjafakortum og inneignarnótum sem koma á borð samtakanna varði yfirleitt gildistíma.
„Oft á tíðum er skammur gildistími og við höfum verið að gagnrýna það mjög og hefðum viljað hafa einhvers konar samræmdan tíma. Mörg fyrirtæki eru farin að bjóða upp á ótakmarkaðan gildistíma, þ.e.a.s. að það rennur ekki út, önnur fyrirtæki standa enn á því að inneignarnótur renni út á einu ári. Við teljum að þetta eigi að vera eins og aðrar fjárkröfur,“ segir Breki.
Ekki hefur enn reynt á gildistíma gjafabréfa eða inneignarnóta fyrir dómstólum
„Við erum að bíða eftir einhverju slíku máli að fara með. En yfirleitt eru þetta ekki svona háar upphæðir eins og þetta, þetta eru yfirleitt einhverjir þúsundkallar eða tugir þúsunda að hámarki, en ekki milljón. Sem er líka ódæmigert fyrir þau mál sem koma til okkar. En við fögnum þessari niðurstöðu fyrir hönd neytandans.“