Íslenskt áhugafólk um knattspyrnu þekkir Mikael Neville nær eingöngu sem vængmann enda er það staðan sem hann leikur alla jafna með Danmerkurmeisturunum sem og íslenska landsliðinu. Í gærkvöld lék hann hins vegar á miðri miðjunni er liðið stillti upp í 5-4-1 leikkerfi.
Segja má að leikkerfið hafi skilað sínu en gestirnir frá Danmörku komust óvænt yfir þökk sé þrumufleyg Alexander Scholz - fyrrum leikmanns Stjörnunnar - og fór það svo að Midtjylland náði í sitt fyrsta stig í Meistaradeildinni á leiktíðinni.
Hinn 22 ára gamli Mikael lék allan leikinn á miðjunni og fékk hrós fyrir frammistöðu sína. Fékk hann 7 í einkunn á vefsíðunni WhoScored. Hann studdi vel við sóknarleik Midtjylland og átti þrjú skot í leiknum. Þá vann hann þrjár af þeim fimm tæklingum sem hann fór í, hreinsaði þrívegis ásamt því að komast þrisvar inn í sendingar Atalanta [e. interception].
Á Twitter-síðu danska félagsins má finna mynd af Mikael þar sem hann er kallaður Mikaelélé. Lasse Vibe – framherji Midtjylland – líkti frammistöðu Mikael við hinn goðsagnakennda franska landsliðsmann Claude Makélélé sem gerði garðinn frægan með Chelsea og Real Madrid á sínum tíma.
Mikaelélé
— FC Midtjylland (@fcmidtjylland) December 1, 2020
(Credit: @LasseVibe )#ATAFCM | #UCL pic.twitter.com/RJhK5JFiEY
Eftir að hafa verið vængmaður framan af ferli sínum var Makélélé færður neðar á völlinn í stöðu djúps miðjumanns. Þar blómstraði hann undir stjórn José Mourinho og á endanum var ekki lengur talað um stöðu djúps miðjumanns heldur Makélélé-stöðuna.
Hvort Mikael fylgi í fótspor Makélélé hvað varðar breytingar á leikstíl sínum verður einfaldlega að koma í ljós.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.