Í bráðabirgðaskýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) um ástand loftslagsins sem birt var í dag kemur fram að árið 2020 stefni á að verða í hópi þriggja hlýjustu ára frá því að beinar veðurathuganir hófust í kringum 1850. Líklegast þykir að það verði það annað hlýjasta, aðeins svalara en árið 2016 en örlítið hlýrra en 2019. Hverfandi munur er þó á meðalhita áranna þriggja.
Áratugurinn 2011 til 2020 verður sá hlýjasti frá því að mælingar hófust og hlýjustu sex árin eru undanfarin sex ár til og með 2015.
Losun á gróðurhúsalofttegundum sem valda loftslagsbreytingum á jörðinni hefur dregist töluvert saman á þessu ári frá því í fyrra vegna áhrifa kórónuveiruheimsfaraldursins. Talið er að samdrátturinn á milli ára verði fordæmalaus.
Vegna uppsöfnunar koltvísýrings í lofthjúpi jarðar og þess að losunin á þessu ári verður áfram talin í tugum milljarða tonna heldur styrkur gróðurhúsalofttegundarinnar áfram að rísa sem mun leiða til frekari hlýnunar.
1/5 að hlýnun fari yfir 1,5°C á næstu fjórum árum
Frá janúar til október hefur meðalhiti jarðar verið um 1,2°C yfir meðaltali áranna 1850 til 1900 sem eru notuð sem viðmið fyrir loftslag áður en menn byrjuðu að hafa stórfelld áhrif á það upp úr iðnbyltingunni.
Nú eru líkurnar á því að hlýnunin verði tímabundið meiri en 1,5°C fyrir árið 2024 taldar að minnsta kosti einn á móti fimm. Metnaðarfyllra markmið Parísarsamkomulagsins, sem var undirritað fyrir fimm árum, var að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C á þessari öld.
Sérstaklega hlýtt hefur verið í norðanverðri Asíu, ekki síst Síberíu. Þar hefur hitinn í ár verið 5°C yfir meðaltali. Í júní mældust 38°C í síberísku borginni Verkhojansk en það er talinn hæsti hitinn sem mælst hefur norðan heimskautsbaugsins.
Hitabylgjan í Síberíu hefur haft miklar afleiðingar fyrir náttúru og aðstæður á norðurskautinu. Gróðureldar sem geisuðu þar í sumar voru þeir verstu hvað varðar kolefnislosun út í andrúmsloftið í átján ár og þá var íslaust í Laptev-hafi, norður af Síberíu, fram í blálok október. Einstaklega lítið hefur verið um hafís þar í vor, sumar og haust. Siglingarleiðin norður fyrir Síberíu var íslaus eða því sem næst frá júlí og fram í október.
Svonefndar La niña-aðstæður sem nú ríkja í Kyrrahafi og hafa almennt kólnandi áhrif á meðalhita jarðar hafa ekki dugað til þess að draga verulega úr hlýnun loftslags á þessu ári.
Hamfarir og veðuröfgar
Hlýindunum í ár hafa fylgt margs konar náttúruöfgar og hamfarir, þar á meðal hitabylgjur í sjó og á landi, gróðureldar í Ástralíu, Síberíu, vesturströnd Bandaríkjanna og Suður-Ameríku, metfjöldi fellibylja á Atlantshafi og mikil flóð í hluta Afríku og Suðaustur-Asíu.
Alls er talið að um tíu milljónir manna hafi þurft að yfirgefa heimili sín af þessum sökum á fyrri hluta árs 2020, fyrst og fremst vegna vatnaveðurs og hamfara. Kórónuveirufaraldurinn er sagður hafa torveldað rýmingar á hamfarasvæðum. Á Filippseyjum hafi til dæmis þurft að flytja 180.000 úr vegi fellibyljarins Vongfong um miðjan maí. Ekki var þó hægt að flytja íbúana burt í stórum hópum og neyðarskýli voru aðeins hálfnýtt vegna reglna um fjarlægðarmörk til að forðast smithættu.
Verstu gróðureldar sem sögur fara af geisuðu í vestanverðum Bandaríkjunum síðsumars og fram á haust. Þeir fylgdu í kjölfar mikilla þurrka og hita. Þær 54,4°C sem mældust í Dauðadalnum í Kaliforníu 16. ágúst er mesti hiti sem hefur mælst á jörðinni í að minnsta kosti áttatíu ár.
Svipaða sögu var að segja í Ástralíu þar sem hitamet voru slegin í hitabylgju um suðurhvelssumarið í janúar. Þar urðu einnig mannskæðir gróðureldar.
Fellibyljatímabilið í ár var sérstaklega virkt og í Norður-Atlantshafi hafa aldrei fleiri stórir fellibyljar myndast. Þeir voru meira en tvöfalt fleiri í ár en meðaltal áranna 1981 til 2010.
Flóð voru sérstaklega skæð í Austur-Afríku, Sahel-svæðinu í Afríku, Suður-Asíu, Kína og Víetnam. Þannig létust á fimmta hundrað manns í flóðum í Súdan og Keníu en metflóð voru í Viktoríuvatni, Níger- og Nílarfljótum. Flóðin áttu einnig þátt í miklum engisprettufaraldri.
Á Indlandi var monsúntímabilið það annað votasta frá árinu 1994. Ágúst var sá úrkomusamasti í sögunni í Pakistan. Flóð gerðu íbúum í Bangladess, Nepal og Búrma lífið leitt.
Í Kína ollu monsúnrigningar flóðum í Yangteze-fljóti sem kostuðu 279 manns lífið og þúsunda milljarða króna eignatjón. Í Víetnam gengu átta fellibyljir og hitabeltislægðir á land á fimm vikna tímabili og bættu gráu ofan á svart eftir úrhellismonsúnrigningar.
Við methita í 80% hafsins
Höf jarðar hafa gleypt við meginþorra þeirrar umframhlýnunar sem vaxandi gróðurhúsaáhrif hafa valdið. WMO segir að metsjávarhiti hafi verið á einhverjum tímapunkti í um 80% hafsins á þessu ári.
Í Laptev-hafi var sterk hitabylgja frá júní fram í október sem er talin skýra hversu seint hafís myndaðist þar í haust.
Hafísinn á norðurskautinu náði lágmarki sínu í september og var það önnur minnsta útbreiðsla hans frá því að gervihnattaathuganir hófust fyrir 42 árum. Aldrei hefur mælst minni hafís í júlí og október en í ár.
Við Suðurskautslandið, þar sem aðstæður eru aðrar en á norðurskautinu, var hafís við eða jafnvel rétt fyrir ofan meðaltal síðustu fjögurra áratuga.
Grænlandsjökull hélt áfram að tapa massa þó að það hafi verið minna en í fyrra. Áætlað er að um 152 milljarðar tonna íss hafi bráðnað í ár.