David Dinkins, fyrrverandi borgarstjóri New York borgar, er látinn, 93 ára að aldri. Dinkins var fyrsti og til þessa eini svarti maðurinn til að hafa gegnt embættinu.
Dinkins var sonur rakara í New York og nam lögfræði við Howard-háskólann og Brooklyn lögfræðiskólann. Hann átti svo síðar eftir að gegna embætti borgarstjóra New York á árunum 1990 til 1993.
Rudy Giuliani, sem tók við borgarstjóraembættinu af Dinkins árið 1993, minnist Dinkins á Twitter þar sem hann hafi þjónað borginni vel og að hann hafi verið virtur af öllum.
I extend my deepest condolences to the family of Mayor David Dinkins, and to the many New Yorkers who loved and supported him.
— Rudy W. Giuliani (@RudyGiuliani) November 24, 2020
He gave a great deal of his life in service to our great City.
That service is respected and honored by all.
Dinkins ólst upp í New Jersey en fluttist ungur til Harlem þar sem hann hóf pólitískan feril sinn. BBC segir að þegar hann tók við embætti og í stjórnartíð hans hafi New York glímt við fjölda vandamála, svo sem háa morð- og glæpatíðni, spennu í samskiptum kynþátta og hátt hlutfall heimilislausra og atvinnuleysis.
Í stjórnartíð sinni hafi Dinkins unnið að uppbyggingu á Times-torgi, auk þess að miklum fjárhæðum var varið í að byggja upp húsnæði í fátækari hverfum borgarinnar, líkt og Harlem og Bronx.
Hann sætti þó einnig talsverðri gagnrýni þar sem margir sökuðu hann um aðgerðaleysi og veika stjórn borgarinnar. Beindist mikil gagnrýni að Dinkins sökum þess hvernig hann tók á óeirðum milli svartra og gyðinga í hverfinu Crown Heights árið 1991 sem blossuðu upp eftir að ungur, svartur drengur dó eftir að hafa orðið fyrir bíl í bílalest rabbína.