Tveir menn slösuðust þegar þeir féllu um sjö metra til jarðar þegar vinnupallur hrundi við hús á Ísafirði á miðvikudaginn fyrir viku.
Frá þessu segir í tilkynningu frá lögreglunni á Vestfjörðum. Þar segir að mennirnir hafi verið að skipta um rúðugler á annarri hæð í einbýlishúsi er óhappið varð.
„Báðir kenndu þeir sér meins en voru með meðvitund er lögreglu og sjúkralið bar að garði. Voru þeir fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi og vinnueftirlitinu gert viðvart um slysið. Annar aðilinn var síðar fluttur með sjúkravél á sjúkrahús í Reykjavík, til frekari læknismeðferðar.“
Vinnuslys á laxeldisbáti á Tálknafirði
Í tilkynningunni segir ennfremur frá því að vinnuslys hafi einnig orðið um borð í laxeldisbát sem lá við bryggju á Tálknafirði á laugardag. Þar hafi maður slasast á fæti þegar verið var að saga í sundur fóðurpípu úr plasti sem var full af blautu fóðri.
„Við það það myndaðist mikil spenna og þegar pípan fór í sundur kastaðist pípan af miklu afli í fótlegginn á honum. Var maðurinn fluttur til læknisaðhlynningar á Patreksfjörð,“ segir í tilkynningunni frá lögreglunni á Vestfjörðum.
Línubátur strandaði til móts við Suðureyri á Tálknafirði sl. miðvikudag. Ekki urðu slys á fólki en skipstjórinn var einn...
Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Wednesday, 18 November 2020