Það reyndist góð ákvörðun að Arnór Ingvi Traustason gæfi eftir sæti sitt í íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi í kvöld. Hann hefur nú greinst með kórónuveirusmit.
Arnór Ingvi staðfesti þetta í viðtali við Kjartan Atla Kjartansson en bút úr viðtalinu má sjá hér að neðan. Viðtalið í heild birtist í upphitunarþættinum sem hefst kl. 18.45 á Stöð 2 Sport í kvöld, fyrir úrslitaleik Ungverjalands og Íslands um sæti á EM.
Til stóð að Arnór færi til Þýskalands á mánudaginn en þá bárust þær fréttir að liðsfélagi hans hjá Malmö, Anders Christiansen, hefði greinst með kórónuveirusmit. Þeir höfðu spilað saman leik á sunnudaginn og fagnað sænska meistaratitlinum.
„Eftir að það kom upp smit í hópnum hjá okkur þá tókum við [Arnór og þjálfarar Íslands] þá ákvörðun í sameiningu að það væri best að ég myndi ekki ferðast. Sem betur fer, því ég testaðist pósitívur í morgun,“ segir Arnór Ingvi.