Hálfgert umferðaröngþveiti skapast við hús í Hveragerði á hverju kvöldi en það er fallega skreytt jólahús með þúsundum jólaljósa. Eigandinn segist aðallega skreyta húsið fyrir börnin í Hveragerði.
Jólahúsið í Hveragerði er við Réttarheiði 17 en Gunnar Sigurðsson, sem býr í húsinu með konu sinni og dóttur hefur alltaf verið mikið jólabarn og byrjar að huga að skreytingunum strax að hausti.
„Ég er búin að gera þetta í nokkur ár og hef haft gaman af þessu. Þetta er gert bæði fyrir sjálfan mig, fjölskylduna og svo aðallega börnin í Hveragerði, sem hafa virkilega gaman af þessu,“ segir Gunnar.
Gunnar segist venjulega kveikja fyrstu jólaljósin í byrjun október en í ár kveikti hann í byrjun september til að reyna að létta lund fjölskyldunnar, nágrannanna og allra íbúa í Hveragerði á tímum kórónuveirunnar. Hann segir nauðsynlegt að lýsa upp skammdegið.

„Já, það finnst mér, það er virkilega gaman af því, það er ekkert sem toppar það.“
Þegar Gunnar er spurður hvað jólaperurnar í garðinum og á húsinu séu margar segist hann ekki hafa hugmynd um það, en einhverjar þúsundir þó.
Halla Sólrún, dóttir Gunnars hlakkar mikið til jólanna og það eru þó tvö atriði, sem standa upp úr hjá henni.
„Opna pakkana og fá að borða jólamatinn.“
Mjög mikil umferð er síðdegis og á kvöldin við Réttarheiði 17 þegar ekið er hægt og jafnvel stoppað við húsið til að skoða jólaskreytingar enda er stundum er hálfgert umferðaröngþveiti við húsið.
„Já, það hefur verið mjög mikil umferð og þetta er hálfgerð hraðahindrun hérna í götunni, sem er svolítið gaman af reyndar,“ segir Gunnar.
En það er ekki bara í Hveragerði sem sjást fallegar jólaskreytingar á húsum, á Höfn í Hornafirði er t.d. búið að skreyta húsið við Kirkjubraut 15 mjög fallegaog sömu sögu er eflaust að segja um fleiri hús víða á landinu.
