Löngu og ströngu CrossFit keppnistímabili lauk á dögunum og það þýðir bara eitt fyrir næstbestu CrossFit konu heims.
Ben Bergeron, þjálfari Katrínar Tönju, átti hlut í þremur af tíu keppendum í ofurúrslitum heimsleikanna og tveir þeirra komust á verðlaunapall.
Katrín Tanja Davíðsdóttir náði silfrinu en það gerði líka Samuel Kwant í karlaflokki. Brooke Wells þurfti reyndar að sætta sig við síðasta sætið.
Ben Bergeron fór yfir næstu skrefin hjá sínu fólki í færslu á Instagram síðu Comptrain. Hann hefur búið Comptrain til og markaðssett meðal annars með hjálp frá Katrínu Tönju.
„Nú þegar heimsleikarnir eru að baki þá getur íþróttafólkið okkar tekið sér smá frí áður en við keyrum æfingarnar aftur upp. Nú þurfa þau tíma til að hlaða batteríin, bæði líkamlega og andlega,“ skrifaði Ben Bergeron á síðu Comptrain.
Hann segir síðan frá næstu skrefum Katrínar Tönju.
„Katrín Tanja er á leiðinni heim til Íslands til að hitta fjölskyldu sína sem hún hefur ekki séð í meira en sex mánuði. Þetta er einn lengsti tími sem hún hefur verið í burtu frá fjölskyldu sinni heima á Íslandi,“ skrifaði Bergeron.
Katrín Tanja mun væntanlega eyða jólum og áramótum heima á Íslandi en það á þó eftir að koma betur í ljós. Bókin hennar er að koma út á íslensku fyrir þessi jól og það er líklegt að einhver tími hjá henni fari í það að kynna hana.
Það má annars sjá færsluna hjá Ben Bergeron hér fyrir neðan en þar segir hann líka frá því hvar þau Samuel Kwant og Brooke Wells ætla að eyða fríinu sínu.