Leiknir Reykjavík er komið upp í Pepsi Max deildina 2021 eftir að KSÍ tók ákvörðun um að blása Íslandsmótið í knattspyrnu af í gær, þar sem Leiknir var í öðru sæti þegar einungis tvær umferðir voru eftir af mótinu.
Leiknismenn voru á æfingu síðdegis í gær um það leyti sem KSÍ greindi frá ákvörðun sinni í kjölfar hertra aðgerða á landinu vegna kórónuveirunnar, sem tóku gildi á miðnætti.
Eftir æfingu brutust út mikil fagnaðarlæti þegar leikmenn fengu fréttirnar að þeir væru komnir í efstu deild.
Tveggja metra reglan er tekin alla leið í Breiðholtinu. Reyndar tóku þeir fjögurra metra reglu King Mæk alvarlega líka. pic.twitter.com/PkOvNW0aGT
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) October 30, 2020
Kristján Óli Sigurðsson, einn þáttastjórnenda í hlaðvarpsþættinum Dr. Football, birtir mynd á Twitter úr búningsklefanum og bendir á að þar hafi tveggja metra regla ekki verið virt.
Fyrr í dag kom fram í frétt á Vísi að leikmenn og starfsmenn meistaraflokks Vals í knattspyrnu hafi fagnað Íslandsmeistaratitli sínum í Fjósinu, félagsheimili félagsins, í gærkvöldi. Svo virðist sem reglur um samkomubann hafi gleymst í fögnuði Valsmanna þar sem staðið var á stólum og sungið. Formaður Vals vissi ekki af hittingnum og sagði hann ekki í anda félagsins.
Fögnuður Leiknismanna í klefanum var þó ekki skipulagður fögnuður heldur var myndin eins og áður segir tekin í búningsklefa eftir æfingu, en á myndinni má telja 21 leikmann. Þá eru engar grímur á andlitum leikmanna.
Íþróttadeild barst myndband úr félagsheimili Leiknismanna í gær þar sem kampavíni eða freyðivíni er sprautað af svölum í heimilinu.
Íþróttadeild náði tali af Oscari Clausen, formanni Leiknis, en hann vildi ekki tjá sig um fögnuð Breiðhyltinga.