Innlent

Dró sér fé til að greiða eigin skuldir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Dómur yfir konunni var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands 16. október síðastliðinn.
Dómur yfir konunni var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands 16. október síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Kona hefur verið dæmd í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt og peningaþvætti. Dómur yfir konunni féll í Héraðsdómi Suðurlands þann 16. október síðastliðinn, en dómurinn var birtur í dag.

Konan var ákærð fyrir að hafa dregið sér fé af reikningi sem hún hafði aðgang að vegna starfs síns. Um var að ræða rúmlega 1,7 milljónir króna sem konan dró að sér frá 1. nóvember 2010 til 5. febrúar 2016. Þá var konan sakfelld fyrir peningaþvætti, með því að hafa yfir sama tímabil ráðstafað fjármunum sem hún dró að sér.

Konan hafði aðgang að bankareikningi vinnustaðar síns og greiddi ítrekað eigin skuldbindingar, svo sem símreikninga, af þeim reikningi. Konan bar meðal annars fyrir sig að hafa óvart eða í hugsunarleysi greitt eigin reikninga út af reikningi vinnustaðarins, þar sem sá reikningur hafi opnast sjálfkrafa í heimabanka hennar.

„Þessari málsvörn ákærðu er hafnað. Þykir afar ótrúverðugt að þetta geti hafa gerst trekk í trekk, án þess að ákærða gætti sín á þessu, en að auki hefði þá mátt búast við að ákærða hefði leiðrétt þetta þegar í stað og þá með sömu krónutölum, en þess sér ekki stað í málinu,“ segir meðal annars í dómnum.

Konan var dæmd til 45 daga fangelsisvistar, sem er skilorðsbundin til tveggja ára. Þá var henni gert að greiða sakarkostnað í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×