Fótbolti

Arnór á markaskónum og CSKA heldur í við toppliðið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Sigurðsson var á skotskónum í dag.
Arnór Sigurðsson var á skotskónum í dag. Gavriil Grigorov/Getty Images

CSKA Moskva vann þægilegan 5-1 sigur á Arsenal Tula á heimavelli í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Hörður Björgvin Magnússon var á sínum stað í vörn CSKA. Hinn 21 árs gamli Arnór Sigurðsson hóf leikinn á bekknum líkt og undanfarið.

Eftir rólegan fyrri hálfleik kom Fedor Chalov heimamönnum yfir undir blálokin með marki úr vítaspyrnu. Nikola Vlašić skoraði annað og þriðja mark CSKA Moskvu snemma í síðari hálfleik og sigurinn því nánast í höfn þegar rúmur hálftími var til leiksloka.

Gestirnir minnkuðu muninn á 78. mínútu og í kjölfarið kom Arnór inn af varamannabekknum. Það tók hann aðeins sjö mínútur að koma knettinum í netið og staðan orðin 4-1 CSKA í vil

Ivan Oblyakov bætti við fimmta marki heimamanna áður en flautað var til leiksloka og lokatölur því 5-1 CSKA í vil. Hinn 27 ára gamli Hörður Björgvin lék allan leikinn í miðverði.

Sigurinn þýðir að CSKA er nú aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Spartak – einnig frá Moskvu – þegar 12 umferðum er lokið í rússnesku úrvalsdeildinni. Var þetta fjórði sigur CSKA í síðustu fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×