Grunnskólabörn á Þingeyri og Gunnar Gísli Sigurðsson, sem mokaði Hrafnseyrarheiði í síðasta sinn síðastliðið vor, verða þau fyrstu sem aka í gegnum Dýrafjarðargöng þegar þau verða opnuð á sunnudag. Frá þessu er greint á vef Vegagerðarinnar. Þar er einnig lýst fyrirkomulagi opnunarathafnarinnar, sem hefst klukkan 14, en hún verður með óhefðbundnum hætti sökum kórónuveirufaraldursins.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri verða stödd í húsakynnum Vegagerðarinnar í Reykjavík. Að loknum stuttum ávörpum, sem verður útvarpað og streymt á netinu, mun ráðherra biðja vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði að lyfta slánum við gangamunnana og þannig opna göngin fyrir umferð.

Vestfirðingum býðst að safnast saman í bílum sínum við báða munna ganganna og fá þannig tækifæri til að aka í gegnum göngin um leið og þau hafa verið opnuð. Börnin á Þingeyri munu fyrst aka í gegn Dýrafjarðarmegin, ásamt Gunnari Gísla, en hann mokað hefur Hrafnseyrarheiði í 46 ár, eða frá árinu 1974.

Á vef Vegagerðarinnar er rifjað upp að skólabörn á Þingeyri hafi tekið virkan þátt í að þrýsta á samgöngubætur fyrir sveitarfélagið. Fyrir tíu árum, þann 2. júní 2010, hafi hópur krakka úr skólanum ásamt foreldrum og starfsfólki, alls um 70 manns, byrjaði að grafa göngin. Markmið gjörningsins hafi verið að vekja athygli á því að göngin höfðu nokkrum sinnum verið slegin út af samgönguáætlun.
Fulltrúar nemenda í 6. og 7. bekk Grunnskólans á Þingeyri hafi í byrjun þessa árs sent samgönguráðherra bréf þar sem óskað var eftir því að börnin í skólanum fengju að vera þau fyrstu sem færu í gegnum göngin þegar þau yrðu opnuð. Samgönguráðherra hafi tekið vel í þessa beiðni og í svarbréfi lýst ánægju með að geta uppfyllt ósk barnanna. Ráðherra hafi jafnframt bætt því við að með þeim í för yrði mokstursmaðurinn Gunnar Gísli Sigurðsson.
Fólk er hvatt til að halda sig í bílunum og tryggja þannig að öllum reglum um sóttvarnir sé fylgt til hins ítrasta. Dynjandisheiðin verður mokuð á sunnudag, ef þurfa þykir. Þeir sem bíða eftir því að aka í gegn eru beðnir um að safnast í einfalda bílaröð á hægri kanti vegarins og að aka viðstöðulaust í gegn eftir að opnað hefur verið.
Þeim sem koma að norðan Dýrafjarðarmegin er bent á að góðar tengingar eru til að snúa við eftir ferð í gegnum göngin vestan við brú á Mjólká. Þeir sem koma að vestan Arnarfjarðarmegin geta snúið við nærri Kjaransstöðum.

Ávörpum ráðherra og vegamálastjóra verður útvarpað við báða munna ganganna á FM-tíðninni 106,1. Viðburðinum verður streymt á Facebook síðu Vegagerðarinnar: www.facebook.com/Vegagerdin. Streymt verður á slóðinni https://livestream.com/accounts/5108236/events/9367337
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 af síðasta stóra snjómokstrinum á Hrafnseyrarheiði í maímánuði í vor: