Félagar í Félagi grunnskólakennara hafa samþykkt nýgerðan kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Frá þessu greinir á vef Kennarasambandsins, en atkvæðagreiðsla hófst föstudaginn 16. október og lauk klukkan ellefu í dag.
Alls voru 5.305 á kjörskrá og greiddu alls 3.642 manns atkvæði, eða tæp 69 prósent.
Úrslit atkvæðagreiðslunnar eru svohljóðandi:
- Já sögðu 2.667 eða 73,23%
- Nei sögðu 913 eða 25,07%
- Auðir voru 62 eða 1,70%
Kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga var undiritaður í Karphúsinu, húsi ríkissáttasemjara, að kvöldi 7. október síðastliðinn.
Gildistími nýja samningsins er frá 1. september 2020 til 31. desember 2021.