Skóla- og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þá ákvörðun að öll íþróttakennsla muni fara fram utandyra og skólasund muni falla niður. Var það ákveðið í samráði við almannavarnir og með tilliti til leiðbeininga sóttvarnaryfirvalda.
Íþróttamannvirki, sundlaugar og söfn á vegum sveitarfélaganna verða lokuð. Ákvörðunin verður þó endurskoðuð eftir viku.
Í yfirlýsingu frá almannavörnum segir að samfélagið eigi mikið undir því að skólastarfi sé haldið gangandi. Því sé lögð áhersla á að takmarka blöndun barna og unglinga milli ólíkra leik- og grunnskóla höfuðborgarsvæðisins. Annar gætu óþarflega stórir hópar þurfti í einangrun eða sóttkví.
„Höfuðborgarsvæðið er á viðkvæmum tíma í faraldrinum. Smitum á höfuðborgarsvæðinu hefur farið fækkandi síðustu daga. Næstu daga er mikilvægt að ná enn frekari tökum á þessari bylgju svo hægt verði aftur að draga úr sóttvarnarráðstöfunum í stað þess að herða frekar á þeim,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir einnig að allir, og þá sérstaklega íbúar höfuðborgarsvæðisins, hafi verið hvattir til að halda áfram að koma í veg fyrir hópmyndun, nánd og blöndun aðila úr álíkum áttum næstu vikur.