Formaður MS-félagsins segir mannréttindi konu með MS fótum troðin þegar henni var synjað um heimaþjónustu og húsnæði. Heilbrigðisráðherra hafi lengi vitað af málinu og ekkert gert. Nú sé verið að skoða lagalega stöðu konunnar.
Við höfum undanfarið sagt frá máli Margrétar Sigríðar sem er með MS-taugasjúkdóminn en frá því í janúar hefur hún verið heimilislaus og var vistuð frísk á bráðadeild Landspítalans í næstum sjö mánuði og dvelur nú í bráðabirgðavistun á Droplaugastöðum sem lýkur í næsta mánuði. Björg Ásta Þórðardóttir formaður MS- félagsins segir félagið hafa verið í samtali við heilbrigðisráðherra strax í febrúar.
„Við teljum að mannréttindi hennar hafi verið fótum troðin í marga mánuði núna. Mér hefur einhvern veginn þótt málið velkjast um í kerfinu og á meðan er konan föst í kerfinu húsnæðislaus í bráðum heilt ár. Þetta úrræðaleysi er algjört,“ segir Björg.
Hún segir fleiri í sömu stöðu.
„Já því miður er það staðan, þetta er ekki einsdæmi. Þá teljum við mikilvægt að fá sérstaka lausn fyrir ungt fólk sem þarf á umönnun að halda að halda vegna fötlunar sinnar en eins og staða er núna þá er slíkt ekki fyrir hendi. Það eru t.d. 130 manns sem eru ennþá ungir, vistaðir á hjúkrunarheimilum þar sem langflestir aðrir íbúar eru komnir á eldri ár. Þetta þarf líka að laga því yngra fólk hefur allt aðrar þarfir en það sem er farið að eldast mikið,“ segir hún.
Hún segir að verið sé að kanna hvort fara eigi lengra með mál Margrétar.
„Það er núna til skoðunnar og það er auðvitað Margrét Sigríður og hennar fólk sem tekur ákvörðun í framhaldinu en við munum styðja hana hvað sem hún ákveður í framhaldinu.
Ms-félagið sendi frá sér áskorun til stjórnvalda í dag þar sem hvatt er til að lausn fáist í máli Margrétar.
Bergur Þorri Benjamínsson formaður Sjálfsbjargar hefur ekki séð annað eins dæmi.

„Þetta mál er held ég það svæsnasta sem ég hef heyrt eða lesið um af sambærilegum tilfellum.
Hann segir mikilvægt að ríki og sveitarfélög vinni meira saman í lausn á slíkum málum.
„Aðalmálið er að fjármagnið með einstaklingum má ekki stoppa því þá verður til stífla og vandinn flæðir út um allt. Það væri best er fjármagnið fylgdi hverjum einstakling en væri ekki á hendi opinberra aðila eins og nú er,“ segir hann.
Fréttastofa leitaði viðbragða frá Heilbrigðisráðuneytinu í dag en fékk þær upplýsingar að þær bærust í næstu viku.