Þrír nemendur í 7.-10. bekk Akurskóla í Reykjanesbæ greindust með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef skólans í dag. Smit innan Akurskóla eru því orðin sex en á mánudag greindust tveir starfsmenn og einn nemandi með veiruna.
Nemendurnir þrír voru allir í sóttkví við greiningu en fleiri starfsmenn og einhverjir nemendur þurfa þó að fara í sóttkví, að því er segir í tilkynningu. Öll kennsla í 7.-10. bekk mun fara fram í gegnum tölvur eða snjalltæki á næstunni vegna þessa.
Í tilkynningu sem birt var á vef skólans eftir að smitin greindust á mánudag kom fram að um 100 nemendur og átta starfsmenn hafi þurft að fara í sóttkví. Þeim hefur nú fjölgað, líkt og áður segir.