Þróttur sýndi allar sínar bestu hliðar í 5-0 sigrinum á KR í Pepsi Max-deild kvenna á sunnudaginn. Sérfræðingar Pepsi Max marka kvenna eru á því að Þróttarar leiki áfram í efstu deild á næsta tímabili.
„Ef maður skoðar leikmannahópa beggja liða, fyrir mót hefðuð þið ekki alltaf spáð KR sigri í þessum leik? Þróttur er nýliði í deildinni, miklu óreyndari sem lið og leikmenn, og þær taka þennan leik og vinna hann 5-0. Mér finnst það stórkostlegt,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Pepsi Max mörkum kvenna í fyrradag.
Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir að Þróttur sé best samæft og best skipulagt af þeim liðum sem eru í neðri hluta Pepsi Max-deildarinnar.
„Þær eru best „drillaðar“ og þess vegna verða þær ekki í basli. Ég hef engar áhyggjur af Þrótti í botnbaráttunni. Þegar ég var búin að sjá þrjá til fjóra leiki í sumar sá ég að þetta var best „drillaða “ liðið af þeim neðstu,“ sagði Bára.
Þróttur er í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar með átján stig, tveimur stigum frá fallsæti.