Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist vona að fjöldi smita sem mælist á hverjum degi fari ekki mikið upp á við á næstu dögum og vikum. Yfirvöld óttist það einna mest að mikill fjöldi einstaklinga veikist, hætta sé á því að það yfirkeyri spítala landsins.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag. Þar minntist hann á að daglegur fjöldi þeirra sem hafi verið að greinast hafi haldist nokkuð stöðugur, en síðustu daga hafa á milli 80 til 100 einstaklingr verið að greinast á hverjum degi.
„Vonandi fer þessi tala ekki upp á við. Við viljum alls ekki að hún fari mikið hærra því að það er það sem við óttumst einna mest að við förum að fá mikinn fjölda af einstaklingum sem er að greinast. Það þýðir það að við fáum mikinn fjölda af alvarlega veikum einstaklingum sem hæglega geta yfirkeyrt spítalakerfið ef að það ástand varir eitthvað áfram,“ sagði Þórólfur.
„Hundrað manns eru að greinast á hverjum einasta degi. Ef það heldur áfram, eða vex frekar, skilar það sé í enn fleiri innlögnum á spítala, sagði Þórólfur. Ef við missum faraldurinn þannig úr höndunum munum við yfirkeyra spítalann. Hvort hann ræður við það eða ekki er erfitt að segja.“
Þá minnstist hann einnig á að mikill fjöldi væri í sóttkví, um 4.300 einstaklingar. Reynslan sýndi að um fimm prósent af þeim sem eru í sóttkví eigi eftir að veikjast.
„Þannig að það er talsverður fjöldi sem á eftir að koma úr sóttkví með veikindi ef að hlutfallið helst óbreytt.“