Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna talsverðrar úrkomu sem spáð er á Suðausturlandi og á Austfjörðum í kvöld.
Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum sem eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.
Ferðafólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll og undir bröttum hlíðum.
Viðvörunin tekur gildi klukkan 18.00 á Suðausturlandi í kvöld en klukkan 21.00 á Austfjörðum. Þær renna báðar út síðdegis á morgun.