Þrír menn eru í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum eftir að bifreið þeirra var ekið á kyrrstæðan bíl með þeim afleiðingum að hún valt í Reykjanesbæ í nótt. Ökumaður jepplingsins var fluttur á sjúkrahús. Grunur er um að ökumaður bifreiðarinnar hafi verið ölvaður undir stýri.
Víkurfréttir greindu frá árekstrinum í gærkvöldi og hafa eftir vitnum að jeppling hafi verið ekið Hringbraut til norður á miklum hraða. Á gatnamótum Faxabrautar og Hringbrautar hafi jepplingurinn tekið stökk af upphækkaðri miðju hringtorgs og hafnað á skutbíl sem stóð á bílastæði við Hringbraut. Skutbíllinn hafi við það kastast nokkra metra en jepplingurinn oltið og staðnæmst á hvolfi.
Að neðan má sjá frétt Víkurfrétta sem voru á vettvangi slyssins í nótt. Fjölmargar myndir fylgja umfjöllun staðarmiðilsins.
Vitnin segja einnig að tveir hafi skriðið út úr flaki jepplingsins. Ökumaðurinn hafi beðið á vettvangi en farþeginn tekið til fótanna. Ekki lágu fyrir upplýsingar um hvort að ökumaðurinn hefði slasast mikið.
Sigurbergur Theodórsson, aðalvarstjóri hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir við Vísi að þrír menn séu í haldi og grunur sé um ölvunarakstur. Jepplingurinn lenti á tveimur öðrum bílum og skemmdi. Málið segir hann til rannsóknar.