Upp úr klukkan tvö í nótt barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um líkamsárás og þjófnað frá verslun við Laugaveg.
Að því er segir í dagbók lögreglu réðst ungur maður í annarlegu ástandi á starfsmann verslunarinnar þegar starfsmaðurinn var að vísa honum út. Mun maðurinn hafa stolið vörum úr búðinni. Hann var handtekinn skömmu síðar og vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um umferðaróhapp í austurborginni. Bíl var ekið á annan bíl en sá sem keyrði á ók af vettvangi.
Bíllinn sem keyrt var á var fjarlægður af vettvangi og hafði ökumaður þess bíls náð upptöku af ökumanninum sem keyrði á hann og bifreið hans. Málið er í rannsókn hjá lögreglu.
Þá voru tveir ökumenn teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna, annar í gærkvöldi og hinn í nótt.