Erlent

Ítalir sam­þykktu að fækka þing­mönnum um þriðjung

Atli Ísleifsson skrifar
Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin samhliða kosningum til sveitarstjórna víðs vegar um landið
Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin samhliða kosningum til sveitarstjórna víðs vegar um landið EPA

Ítalir hafa ákveðið að fækka þingmönnum á ítalska þinginu um meira en þriðjung. Um sjötíu prósent landsmanna samþykktu breytinguna í þjóðaratkvæðagreiðslu en hún þýðir að þingmönnum í neðri deild þingsins fækkar úr 634 í 400.

Sömuleiðis verður skorið niður í öldungadeildinni en allt í allt fækkar þingmönnum í báðum deildum úr 945 og niður í 600.

Þjóðaratkvæðagreiðslan um fækkun þingmanna var eitt af aðalkosningamálum Fimm stjörnu hreyfingarinnar svokallaða, sem nú situr í ríkisstjórn ásamt fleiri flokkum og voru helstu rök hreyfingarinnar þau að þetta myndi spara stórar fjárhæðir.

Tillagan hafði þegar verið samþykkt á ítalska þinginu sjálfu. Breytingarnar taka gildi fyrir kosningarnar 2023.

Þjóðaratkvæðagreiðslan var haldin samhliða kosningum til sveitarstjórna víðs vegar um landið. 

Í frétt BBC segir að litið sé á sveitarstjórnakosningarnar sem visst áfall fyrir Matteo Salvini, leiðtoga hægriöfgamanna, og sigur fyrir miðjuflokkanna og Giuseppe Conte forsætisráðherra. 

Salvini og liðsmenn flokks hans unnu sigur í héraðinu Marche í austurhluta landsins og hélt völdum í tveimur héruðum til viðbótar. Flokkurinn hafði hins vegar vonast eftir mun fleiri sigrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×