Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hyggst ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um áætlun hans um að tilnefna nýjan dómara til Hæstaréttar Bandaríkjanna áður en kjörtímabili hans lýkur.
Trump sagði í dag að hann ætli að tilnefna nýjan dómara til að taka sæti Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétti, en hún lést á föstudag. Demókratar hafa gagnrýnt forsetann harðlega og hafa bent á að árið 2016 þegar skipa þurfti nýjan dómara í Hæstarétt hafi Mitch McConnel, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, stöðvað atkvæðagreiðslu um tilnefningu Barack Obama þáverandi forseta, og sagði það óviðeigandi að skipa nýjan dómara á kosningaári.
Eins og staðan er í dag eru þrír dómaranna í hæstarétti taldir frjálslyndir og fimm íhaldssamir og kæmi til þess að Trump tilnefndi arftaka Ginsburg yrðu íhaldssamir dómarar sex á móti þremur frjálslyndum. Trump hefur þegar skipað tvo dómara í Hæstarétt, þá Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh.
Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður Repúblikana sagði í dag að hún væri mótfallin fyrirætlunum Trump og er hún annar þingmaðurinn í meirihluta McConnel til þess að lýsa yfir andstöðu sinni við fyrirhugaðri tilnefningu Trump. Susan Collins lýsti yfir andstöðu sinni í gær. Rebúblikanar eru með 53 þingmenn í öldungadeildinni á móti 47 þingmönnum Demókrata.
„Ég studdi það ekki þegar dómari var tilnefndur átta mánuðum fyrir forsetakosningarnar 2016 til þess að fylla upp í sæti Scalia heitins,“ sagði Murkowski í yfirlýsingu í dag. „Nú er enn styttra í forsetakosningarnar – það eru tæpir tveir mánuðir í þær – og ég tel að það sama eigi að gilda.“
Antonin Scalia, dómari í Hæstarétti Bandaríkjanna, féll frá í febrúar 2016 en McConnell stöðvaði atkvæðagreiðslu um tilnefningu Barack Obama til Hæstaréttar, sem var Merrick Garland.