Innlent

Lista­há­skólinn lokaður á morgun vegna fjölgunar smita

Sylvía Hall skrifar
Listaháskólinn opnar aftur á mánudag.
Listaháskólinn opnar aftur á mánudag. Vísir/Vilhelm

Ákveðið hefur verið að loka Listaháskólanum á morgun, föstudag, vegna þeirra smita sem hafa greinst undanfarna daga, sem mörg hver tengjast háskólastarfi. Skólinn opnar aftur á mánudag og verður starfsemin óbreytt að því er fram kemur í tilkynningu til nemenda og starfsmanna skólans.

Starfsmenn skólans munu því nýta morgundaginn til þess að fara yfir sóttvarnaaðgerðir með tilliti til frekari úrbóta og sjá hvort smitum haldi áfram að fjölga yfir helgina. Þá mun skólinn fylgjast vel með þróun mála og næstu skrefum sóttvarnayfirvalda.

„Meginmarkmið okkar með öllum þeim aðgerðum sem við höfum gripið til nú á haustönninni er ávallt hið sama; að halda kennslu áfram á öllum þeim sviðum sem okkur er kleift með sem eðlilegustum hætti,“ segir í tilkynningunni frá Fríðu Björk Ingvarsdóttur, rektor LHÍ.

Hún segist binda vonir við það að afrakstur morgundagsins muni minnka líkurnar á því að skólinn þurfi alfarið að styðjast við fjarkennslu enda ætli skólinn að styrkja sóttvarnir innan veggja hans. Líkt og áður er aðeins nemendum og starfsfólki heimilt að heimsækja skólann og þurfa þeir að halda sig innan ákveðinna sóttvarnahólfa.

Þá hvetur Fríða nemendur og starfsfólk til þess að halda sig heima finni þau fyrir flensueinkennum. Skynsemin eigi að ráða för.

„Við eigum mjög mikið undir því að allir, ekki síst nemendur sem eru uppistaðan í skólastarfinu, sýni ábyrgð í sínum sóttvörnum innan háskólans sem utan.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×