Íslenski boltinn

Arna skoraði án þess að koma inn á völlinn samkvæmt skýrslu dómarans

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Eiríksdóttir átti flotta innkomu af bekknum í gær og skoraði fjórða mark Valsliðsins.
Arna Eiríksdóttir átti flotta innkomu af bekknum í gær og skoraði fjórða mark Valsliðsins. Mynd/S2 Sport

Valskonan Arna Eiríksdóttir kom ekki við sögu í leik Vals og ÍBV í gær samkvæmt skráningu dómara leiksins. Þeir sem sáu leikinn hafa aftur á móti allt aðra sögu að segja og löngu eftir leikinn fékk hún loksins skráð á sig markið sem hún skoraði.

Hún var frekar skrautleg leikskýrsluskráning dómara leiks Vals og ÍBV í Pepsi Max deild kvenna í gær.

Lokatölur leiksins, sem endaði með 4-0 sigri Vals, voru skráðar vera 3-0 lengi fram eftir degi í gær eins og sjá má hér til hliðar en úrslitin voru loksins löguð um kvöldmatarleitið. Fram að því vantaði að skrá mark Örnu Eiríksdóttur sem var eina mark seinni hálfleiksins.

Markið var síðan loksins skráð á Örnu Eiríksdóttur en þar með er ekki öll sagan sögð.

Dómarar leiksins klikkuðu nefnilega ekki aðeins á því að skrá markið á Örnu Eiríksdóttur í upphafi heldur skráðu þeir ekki heldur skiptinguna hennar.

Þegar markið var loksins skráð á Örnu var hún enn skráð sem ónotaður varamaður í leiknum.

Arna Eiríksdóttir hafði komið inn á sem varamaður á 76. mínútu fyrir systur sína Hlín Eiríksdóttur. Markið skoraði hún síðan á 82. mínútu.

Samkvæmt leikskýrslunni þá var Hlín Eiríksdóttir ennþá inn á vellinum á þeirri stundu og Arna enn á bekknum. Þær eru vissulega líkar systurnar en kannski ekki alveg svo líkar.

Það má búast við KSÍ leiðrétti leikskýrsluna í annað sinn í dag ekki nema dómarinn vilji standa fastur á sínu að Arna Eiríksdóttir hafi aldrei komið inn á völlinn í gær. Hvernig henni tókst þá að skora er aftur á móti allt önnur saga.

Dómarinn bendir á miðjupunktinn og dæmir mark. Arna Eiríksdóttir fagnar með félögum sínum í Valsliðinu.Skjámynd/S2 Sport
Hér má sjá leikskýrsluna eins og hún leit út þegar var loksins búið að skrá markið á Örnu Eiríksdóttur. Græn píla fyrir aftan nafnið þýðir að viðkomandi leikmaður hafi komið inn á sem varamaður.Skjámynd/Vefur KSÍ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×