Lögreglumenn í Washinton-ríki á vesturströnd Bandaríkjanna skutu til bana mann sem var grunaður um að hafa drepið hægriöfgamanninn Aaron Danielson í óeirðunum í Portland í Oregon um síðustu helgi.
Michael Reinoehl var 48 ára gamall og lögregla var með mál hans til rannsóknar, en hann hafði haldið því fram í samtölum við fjölmiðla ytra að hann hafi skotið Danielson í sjálfsvörn.
Ekki liggur fyrir hvað gerðist sem leiddi til þess að lögreglan skaut Reinoehl en fjölmiðlar hafa eftir ónefndum lögreglumönnum að hann hafi gripið til vopna þegar átti að yfirheyra hann.
Mikil mótmæli hafa verið í Portland síðustu mánuði eða síðan lögreglumenn drápu George Floyd í maí og síðustu vikur hefur komið til tíðra átaka á milli vinstrisinnaðra mótmælenda og hægrisinnaðra stuðningsmanna Donalds Trump forseta.