Íslenska karlalandsliðið í fótbolta undirbýr sig nú fyrir leikina gegn Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni.
Strákarnir æfðu á Laugardalsvelli í dag. Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, var á æfingunni og tók þessar skemmtilegu myndir sem má sjá hér fyrir neðan.
Á myndinni hér fyrir ofan má sjá Albert Guðmundsson með eyrnalokka, eitthvað sem Ronald de Boer er eflaust ekki sáttur með. Þessi fyrrverandi landsliðsmaður Hollands gagnrýndi Albert harðlega fyrir að setja á sig eyrnalokka áður en hann fór í viðtal eftir leik AZ Alkmaar og Viktoria Plzen í Evrópudeildinni í síðustu viku. AZ vann leikinn 3-1 en Albert skoraði tvö marka liðsins.
„Ég veit ekki hvort þið tókuð eftir þessy en hann var búinn að setja á sig tvo demants eyrnalokka. Hann fór inn í klefa til að setja á sig eyrnalokka án þess að fara í sturtu,“ sagði De Boer og skammaði Albert líka fyrir að tala ensku en ekki hollensku í viðtalinu.
Ísland mætir Englandi á Laugardalsvelli klukkan 16:00 á Laugardalsvelli á laugardaginn. Á þriðjudaginn mæta Íslendingar svo Belgum ytra. Báðir leikirnir verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.











