KR-ingurinn Atli Sigurjónsson var besti leikmaður helgarinnar í Pepsi Max-deild karla í fótbolta að mati sérfræðinga Pepsi Max-stúkunnar sem gerðu upp leikina í 15. umferð í gærkvöld.
Atli skoraði tvö fyrstu mörk KR í 4-1 sigrinum gegn ÍA og var vel að því kominn að hljóta útnefningu sem besti leikmaðurinn í þeim fjórum leikjum sem fóru fram á sunnudag.
Atli var að sjálfsögðu í liði umferðarinnar auk félaga sinna Pablo Punyed og Kristins Jónssonar. Í liðinu voru fjórir Valsmenn eftir 1-0 sigurinn gegn HK, tveir Fylkismenn og tveir KA-menn.
Valdimar Þór Ingimundarson var í sjötta sinn í liði umferðarinnar og markið sem hann skoraði fyrir Fylki gegn Gróttu var sömuleiðis valið Origo-mark umferðarinnar.
Sebastian Hedlund var einn af Valsmönnunum í liði umferðarinnar en hann átti frábæran leik í vörn Vals gegn HK og hlaut viðurkenningu fyrir Voltaren-varnarvinnu umferðarinnar.