Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Breiðabliks, er á leið til franska úrvalsdeildarliðsins Le Havre og hefur líklega leikið sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í bili.
Berglind staðfesti þetta við Vísi í kvöld en hún er á leið í læknisskoðun á fimmtudag. Ef allt gengur þar eftir óskum verður hún leikmaður franska liðsins á fimmtudag.
Le Havre tryggði sér sæti í frönsku úrvalsdeildinni í vor en liðið var í frönsku B-deildinni á síðustu leiktíð. Berglind Björg væri því annar leikmaðurinn í Frakklandi en Sara Björk Gunnarsdóttir leikur með Evrópumeisturum Lyon.
Þetta er mikill missir fyrir Breiðablik, sem er í mikilli baráttu við Val á toppnum í Pepsi Max deild kvenna, en Berglind hefur skorað tólf mörk í níu leikjum í sumar. Hún skorað sextán mörk í sautján leikjum á síðustu leiktíð.
Berglind lék í vor með AC Milan og raðaði þar inn mörkunum en hún segist hafa heyrt af áhuga Le Havre skömmu eftir veruna á Ítalíu. Þetta hafi svo gerst allt mjög hratt síðustu daga.