Íslenski boltinn

Hannes um Belgíu leikinn: Þetta var ákvörðun þjálfaranna

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Hannes Þór Halldórsson stóð sig vel í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson stóð sig vel í kvöld. VÍSIR/BÁRA

„Mér finnst þetta skemmtilegustu sigrarnir, fyrir mig sem markmaður. Barnings sigur, 1-0, skíta aðstæður og allt ógeðslega erfitt“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals eftir 1-0 sigurinn á HK í kvöld.

„Það var mikið sparkað inn í boxið hjá okkur undir lokin og mikill léttir þegar þetta var flautað af. Þetta var karakters sigur hjá okkur, við erum að landa sigrum núna í öllum regnbogans litum. Við þurftum að skora fimm mörk í síðasta leik til að vinna þann leik þegar við, vörnin og ég áttum off dag,“ sagði Hannes sem vitnar þá í 4-5 sigur Vals á KR í síðasta leik.

HK sótti grimmt undir lok leiks og sköpuðu hættu inn í teignum hjá Hannesi sem sagði að það hafi aðeins reynt á þá á loka mínútunum.

„Það gerist alltaf sjálfkrafa að liðið sem er undir fer að sækja meira. Þá bara skelltum við í lás og vorum þéttir, það féll líka aðeins með okkur.“

Hannes hélt hreinu í dag og gerir það vonandi í næsta leik líka en sá leikur er á Laugardalsvelli þegar Ísland mætir Englandi.

„Nú er bara að snúa sér að því verkefni, ég hef ekki pælt mikið í því hingað til en stór og mikill leikur. Það verður gaman að takast á við þetta verkefni.“

Valur krafðist þess að fá frestun á leikjunum eftir landsleikjahlé ef Hannes Þór færi til Belgíu svo sameiginleg niðurstaða var sú að hann færi ekki með landsliðinu í síðari leikinn gegn Belgíu ytra. Hannes virðir þessa ákvörðun.

„Auðvitað hefði verið gaman að fara til Belgíu og spila. Þetta var bara ákvörðun sem var tekin milli þjálfaranna hér og landsliðsþjálfara og kannski er þetta bara skynsamlegasta niðurstaðan,“ sagði Hannes Þór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×