Gareth Southgate er búinn að velja enska landsliðshópinn sem kemur til Íslands og mætir íslenska landsliðinu í Þjóðadeildinni. Allar helstu stjörnur liðsins eru í hópnum og skiptir litlu þó margir leikmenn hafi verið að ljúka tímabilinu með félagsliði sínu fyrir aðeins örfáum dögum.
Það er ljóst að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, ætlar sér alls ekki að tapa gegn Íslandi og Danmörku í Þjóðadeildinni. Búið er að opinbera hvaða leikmenn hann hefur valið í komandi verkefni.
England's latest squad is in!
— Match of the Day (@BBCMOTD) August 25, 2020
Thoughts? pic.twitter.com/YoTDPz2C0b
Allar helstu stjörnur Englands eru í hópnum nema þær sem ekki gáfu kost á sér vegna meiðsla. Harry Maguire, fyrirliði Manchester United, er í hópnum en hann óvíst var með þátttöku hans eftir að hann var handtekinn á grísku eyjunni Mykonos nýverið.
Það skiptir Southgate litlu þó leikmenn séu tiltölulega nýfarnir í sumarfrí en ásamt Maguire eru þeir Marcus Rashford og Mason Greenwood, framherjar Man United, einnig í hópnum. Þá eru Raheem Sterling, Kyle Walker og Phil Foden, leikmenn Manchester City, í hópnum.
Athygli vekur að Jack Grealish er ekki í hópnum en ekki er talið að hann sé að glíma við meiðsli. Þeir Jordan Henderson, Alex Oxlade-Chamberlain [leikmenn Liverpool], Ben Chilwell og James Maddison [leikmenn Leicester City] eru hins vegar allir fjarverandi vegna meiðsla.
Forvitnilegt verður að sjá hvaða markvörður byrjar leikinn gegn Íslandi en talið er að sæti Jordan Pickford í byrjunarliði Englands sé í hættu.
Leikur Íslands og Englands í Þjóðadeildinni fer fram á laugardaginn kemur, 5. september, klukkan 16:00 og er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport sem og allir leikir Íslands í keppninni.
Sýnt verður beint frá öllum leikjum Íslands í Þjóðadeildinni á Stöð 2 Sport. Riðlakeppnin hefst 5. september og lýkur 18. nóvember á þessu ári. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Ísland - England (Laugardalsvöllur) - 5.9.2020
Belgía - Ísland (Óvíst) - 8.9.2020
Ísland - Danmörk (Laugardalsvöllur) - 11.10.2020
Ísland - Belgía (Laugardalsvölur) - 14.10.2020
Danmörk - Ísland (Parken) - 14.11.2020
England - Ísland (Wembley) - 18.11.2020