Tillaga velferðarráðs Reykjavíkurborgar um opnun nýs áfangaheimilis fyrir konur í miðborg Reykjavíkur var samþykkt á fundi borgarráðs í dag. Unnið verður eftir áfallamiðaðri hugmyndafræði í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítalann.
Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að áfangaheimilið sé ætlað sem tímabundið húsnæði til að leysa bráðan húsnæðisvanda þeirra sem eru í virkri endurhæfingu eftir áfengis- eða vímuefnameðferð. „Markmiðið er að bjóða einstaklingum sem hætt hafa neyslu öruggt heimili, stuðning og aðhald meðan þeir aðlagast samfélaginu á nýjan leik,“ segir í tilkynningunni.
Í húsinu verða fjórtán einstaklingsíbúðir, ein starfsmannaíbúð og sameiginlegt rými en áætlað er að kostnaður vegna reksturs þess verði allt að 25 milljónir króna á ári.
,,Húsnæðisvandi kvenna er oft dulinn og tilraunir til að mæta þörfum þeirra með sérstökum úrræðum hafa ekki borið nægilegan árangur. Konur þurfa skjól og öryggi þar sem þeim er mætt á þeirra forsendum,” segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkur.
Þá verður einnig gengið til viðræðna við Rótina – félag um konur, áföll og vímugjafa, um rekstur neyðarskýlisins Konukots.