Þrátt fyrir að færri eignaspjöll hafi verið framin á höfuðborgarsvæðinu í júlí en í júní hafa ekki verið framin fleiri „meiriháttar eignaspjöll“ í einum mánuði síðan í október. Þá hefur ekki verið meira um veggjakrot á höfuðborgarsvæðinu síðan í ágúst 2018.
Þetta er meðal þess sem lögreglan tiltekur í nýrri mánaðarskýrslu sinni yfir afbrot á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Þar segir að alls hafi 763 hegningarlagabrot verið framin á höfuðborgarsvæðinu í mánuðinum, sem ber með sér fjölgun frá fyrri mánuði.
Þannig segir lögreglan að reiðhjólaþjófnaður hafi aukist en minna hafi verið um nytjastuld bifreiða. Tilkynningum um innbrot á einnig að hafa fjölgað töluvert á milli mánaða, ekki síst innbrotum í fyrirtæki og stofnanir. Lögreglan segir að sér hafi borist um sex prósent færri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár á undan.
Hvað eignaspjöll varðar segir lögreglan að þau hafi verið 118 talsins á höfuðborgarsvæðinu í júlí. Þrjú þeirra voru meiriháttar, 37 rúður voru brotnar og 12 tilfelli veggjakrots að sögn lögreglu. Þau hafi ekki verið fleiri í tvö ár.
Skráðum ofbeldisbrotum á jafnframt að hafa fækkað á milli mánaða og segir lögregla að sér hafi borist færri tilkynningar um heimilisofbeldi í júlí heldur en í júní. Tilvikum þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi hafi hins vegar fjölgað á milli mánaða.