Knattspyrnuveisla Stöð 2 Sport og hliðarrása heldur áfram í dag. Við sýnum þrjá leiki beint úr þremur mismunandi keppnum. Undanúrslit Meistaradeildar Evrópu, Pepsi Max deild kvenna og Lengjudeild karla.
Við sýnum leik Breiðabliks og Þór/KA í Pepsi Max deild kvenna frá Kópavogsvelli klukkan 18:00 á Stöð 2 Sport. Blikar stefna hraðbyr að Íslandsmeistaratitlinum en liðið er með fullt hús stiga og hefur ekki enn fengið á sig mark.
Breiðablik lagði botnlið FH 7-0 í síðustu umferð á meðan Þór/KA gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna. Það er því ljóst að gestirnir þurfa að eiga sinn besta leik í langan tíma til að fá eitthvað út úr leik dagsins.
Stöð 2 Sport 2
Síðari undanúrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu fer fram í kvöld en þar mætast Lyon og Bayern Munchen. Franska liðið hefur slegið út bæði Juventus og Manchester City en það verður að segjast að Þýskalandsmeistarar Bayern eru töluvert líklegri í kvöld.
Liðið sem vinnur mætir svo PSG í úrslitaleik Meistaradeildarinanr sem fram fer á sunnudaginn kemur.
Upphitun fyrir leikinn hefst 18:30 og eftir leik verður farið yfir það helsta sem gerðist af sérfræðingum Stöð 2 Sport.
Stöð 2 Sport 3
Við sýnum beint frá leik ÍBV og Aftureldingar í Lengjudeild karla. ÍBV þurfa sigur til að halda í við topplið Keflavíkur og Leiknis Reykjavíkur. Eyjamenn eru með stigi minna þegar níu umferðum er lokið en liðið hefur þó ekki enn tapað leik í deildinni.