Körfubolti

Kobe hafði samþykkt að aðstoða Dwight í troðslukeppninni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dwight Howard í troðslukeppninni í gærnótt.
Dwight Howard í troðslukeppninni í gærnótt. Vísir/Getty

Dwight Howard staðfesti eftir troðslukeppni NBA deildarinnar að Kobe Bryant heitinn hafi ætlað að aðstoða Howard í keppninni. Vitað var að Howard hafi upprunalega viljað aðstoð Kobe en en hvort sá síðarnefndi hefði verið tilbúinn að rétta fram hjálparhönd var óvitað.

Hinn 34 ára gamli Howard staðfesti svo eftir að keppninni lauk að Kobe hefði verið búinn að samþykkja að hjálpa honum með aðra troðslu kvöldsins. Kobe átti þá að rétta miðherjanum stæðilega Superman skikkjuna sem hann gerði upprunalega ódauðlega í troðslukeppninni 2008. Í kjölfarið hafi Howard ætlað að sýna Kobe að í staðinn fyrir bókstafinn S á bringunni hafi hann verið með töluna 24.

Eins og alþjóð veit lék Kobe Bryant í treyju númer 24 hjá Lakers í hartnær áratug. 

Howard og Kobe elduðu grátt silfur saman er sá fyrrnefndi lék með Lakers liðinu leiktíðina 2012-2013. Fyrir andlát Kobe höfðu þeir þó staðfest að stríðsöxin væri grafin. Sá fyrrnefndi hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga í öflugu liði Lakers í vetur og átti samvinna hans og Kobe í troðslukeppninni endanlega að staðfesta að vinátta þeirra væri komin til að vera.


Tengdar fréttir

Verðlaunin nefnd eftir Kobe Bryant | Umdeild troðslukeppni

Verðmætasti leikmaður stjörnuleiks NBA-deildarinnar er jafnan heiðraður með verðlaunum og hafa forráðamenn deildarinnar ákveðið að verðlaunin skuli nefnd í höfuðið á Kobe Bryant heitnum, honum til heiðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×