Nokkrir piltar köstuðu flugeldi inn um bréfalúgu á íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um síðustu helgi. Eldur kviknaði í mottu í anddyrinu en húsráðandi var snar í snúningum, braut mottuna saman yfir flugeldinn og kastaði henni út, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.
Þar segir einnig að lögreglumenn hafa rætt við piltana og aðstandendur þeirra á alvarlegum nótum. Drengirnir báðu húsráðendur afsökunar. Tilkynning um athæfi þeirra var send til barnaverndar.