Brautskráðir voru 208 nemendur úr Háskólanum í Reykjavík við hátíðlega athöfn í Eldborgarsal Hörpu í gær. 153 nemendur voru brautskráðir úr grunnnámi, 54 úr meistaranámi og einn úr doktorsnámi.
Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sagði í ávarpi sínu að háskólar beri mikla ábyrgð þegar að því kemur að undirbúa samfélagið fyrir framtíðina. HR hafa markað skýra stefnu um þróun menntunar og þekkingar: „Í menntun horfum við til þess að mæta nýrri kynslóð nemenda og nýjum þörfum samfélags með auknum sveigjanleika, stafrænni tækni og verkefnadrifnu námi í samstarfi við atvinnulíf og alþjóðlega samstarfsaðila. Um leið horfum við til þess að mæta menntunarþörfum þeirra sem þegar eru á vinnumarkaði, þar með talið útskrifuðum HR-ingum. Þannig tryggjum við menntun til tækifæra, fyrir alla og á öllum æviskeiðum,“ sagði Ari í ávarpi sínu.
71 nemandi útskrifaðist af samfélagssviði og 137 af tæknisviði.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flutti hátíðarávarp við athöfnina og fyrir hönd útskriftarnemenda flutti Eðvarð Þór Eyþórsson, BSc í bygginartæknifræði ávarp.
Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands veitti verðlaun VÍ fyrir framúrskarandi námsárangur. Þau hlutu að þessu sinni: Elín Lára Reynisdóttir BSc í íþróttafræði, Valgarður Ragnheiðar Ívarsson BSc í tölvunarfræði, Jónína Sigrún Birgisdóttir BSc í sálfræði, Þorri Geir Rúnarsson BSc í viðskiptafræði, Björgvin Grétarsson BSc í byggingartæknifræði, Hannes Rannversson BSc í rekstrarverkfræði og Sonja L Estrajher Eyglóardóttir BA í lögfræði.
208 nemendur brautskráðir úr HR
