Grunur leikur á því að móðir sem greinst hafði með Wuhan-kórónaveiruna hafi smitað barn sitt af veirunni í móðurkviði.
Umrætt barn fæddist á barnaspítala í kínversku borginni Wuhan í Hubei-héraði, þar sem veiran er talin eiga upptök sín, síðasta sunnudag.
Sýni úr barninu var rannsakað þrjátíu klukkustundum eftir fæðingu þess og kom þá í ljós að það væri einnig smitað af veirunni. Fréttastofa bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky hefur þetta eftir kínverska ríkissjónvarpinu.
Barnið er með mæði en líðan þess er annars góð að sögn lækna. Röntgenmyndir af brjóstholi eru sagðar sýna engin merki um sýkingu í lungum barnsins en eitthvað er um óeðlilega lifrarstarfsemi.
Zeng Lingkong, yfirlæknir á barnaspítalanum, segir að málið minni á mikilvægi þess að rannsaka nánar þessa mögulegu smitleið.