Handbolti

Haukar í Höllina eftir sigur á Fjölni og Ís­lands­meistararnir niður­lægðir í Garða­bæ

Anton Ingi Leifsson skrifar
Haukur og félagar fengu á baukinn í kvöld.
Haukur og félagar fengu á baukinn í kvöld. vísir/bára

Haukar rifu sig upp eftir tapið gegn FH í Hafnarfjarðarslagnum um helgina og unnu 26-21 sigur á Fjölni í átta liða úrslitum Coca-Cola bikarsins í kvöld.

Hafnarfjarðarliðið gerði út um leikinn strax í fyrri hálfleik. Þeir voru sjö mörkum yfir í hálfleik, 15-8, og sigurinn var aldrei í hættu eftir það.

Orri Freyr Þorkelsson gerði sjö mörk og þeir Heimir Óli Heimisson og Ólafur Ægir Ólafsson fjögur hvor. Grétar Ari Guðjónsson átti magnaðan leik í markinu en hann varði ellefu skot (58% markvarsla).

Í liði Fjölnis var það Brynjar Loftsson sem var markahæstur með fjögur mörk. Elvar Otri Hjálmsson og Goði Ingvar Sveinsson gerðu þrjú mörk hvor.

Í Garðabæ fór fram hins vegar athyglisverður leikur er Íslandsmeistarar Selfoss töpuðu með fjórtán marka mun, 35-21, gegn Stjörnunni. Staðan var 16-8 Stjörnunni í vil í hálfleik.

Leó Snær Pétursson og Andri Þór Helgason gerðu sjö mörk hvor fyrir Stjörnuna og Brynjar Darri Baldursson var með 53% markvörslu í markinu.

Daníel Karl Gunnarsson, Haukur Þrastarson, Magnús Öder Einarsson og Alexander Már Egan gerðu allir þrjú mörk fyrir Selfoss.

Haukar og Stjarnan eru því komin í undanúrslitin í Laugardalshöllinni en á morgun eru viðureignirnar ÍBV og FH annars vegar og Afturelding og ÍR hinsvegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×