Um 3.600 farþegum og áhafnarmeðlimum skemmtiferðaskipsins World Dream var í dag loks leyft að fara frá borði eftir að hafa verið í fjögurra daga löngu sóttkví fyrir utan strendur Hong Kong.
Óttast var að starfsfólk um borð væri smitað af Wuhan-kórónaveirunni en fyrri farþegar skipsins höfðu þá greinst með veiruna á landi. Var því einnig talin hætta á því að áhafnarmeðlimir hafi smitað farþega um borð.
Í dag var greint frá því að búið væri að rannsaka alla áhafnarmeðlimi, sem voru hátt í 1.800 talsins, og að enginn þeirra hafi greinst með umrædda veiru. Í kjölfarið var öllum um borð í skipinu leyft að fara frá borði án þess að vera sendir í frekara sóttkví.
Annað skemmtiferðaskip sem ber nafnið Diamond Princess er þó enn í einangrun við japönsku borgina Yokohama eftir að áttræður karlmaður sem var um borð veiktist af veirunni snemma í síðustu viku.
Greint var frá því á föstudag að minnst 61 staðfest smit hafi greinst um borð í Diamond Princess.
Wuhan-veiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV, eða Nýja kórónaveiran. Veiran hefur stungið upp kollinum í tæplega 30 löndum.
Hér fyrir neðan má sjá fjölda staðfestra smita þessa stundina og hvar þau hafa greinst í heiminum.