Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Fjölnir 90-82 | Öflugur sigur Þórs Helgi Hrafn Ólafsson skrifar 2. febrúar 2020 21:00 Halldór Garðar Hermannsson. Vísir/Daníel Þór Þorlákshöfn tók á móti Fjölni í kvöld í Dominosdeild karla. Þórsarar voru fyrir leikinn í áttunda sæti í deildinni en samt ekki nema einum sigri frá fallsæti. Fjölnismenn voru svo gott sem fallnir fyrir leikinn en gátu alveg eyðilagt fyrir heimamönnum með sigri. Leikurinn var jafn lengstum en á lokakaflanum náði Þór forystunni og vann að lokum 90-82. Hvorugt lið gat skilið sig frá hinu í upphafi leiks og ljóst að sóknarleikurinn var góður hjá báðum liðum í fyrstu. Eftir því sem leið á leikhlutann tóku heimamenn forystuna og eftir góðan lokasprett leiddu þeir með sjö stigum í fyrstu leikhlutaskiptunum. Fjölnir átti afleitar fimm mínútur í byrjun annars leikhlutans og gátu aðeins skorað fimm stig á meðan að Þórsarar héldu áfram að skora og auka forskot sitt. Gestirnir fóru loks að hitta betur seinni fimm mínúturnar og voru aðeins níu stigum frá heimamönnum í hálfleik eftir að hafa misst þá fimmtán stigum frá sér um miðbik leikhlutans. Þórsmenn komu ekki nægilega beittir inn í seinni hálfleikinn og hleyptu stórskyttu Fjölnis, Srdan Stojanovic, í nokkra þrista. Sjálfstraustið kom aðeins til baka hjá gestunum og liðin hófu að skiptast á að leiða í leiknum. Að lokum setti Srdan galopin þrist eftir sóknarfrákast og Fjölnir fóru með eins stigs forystu inn í lokaleikhlutann. Marko Bakovic hafði átt góðan leik fram að þessu og náði að halda því áfram í lokafjórðungnum. Í hvert sinn sem að liðið þurfti á körfu að halda gat hann fundið leið til að skora yfir framherja Fjölnis og halda þannig aftur af þeim. Þór Þorlákshöfn vann leikinn að lokum 90-82.Af hverju vann Þór? Þórsarar gátu fundið jafnvægið í leik sínum í lokafjórðungnum eftir að hafa gefið eftir í þriðja leikhluta. Þeir fóru að spila betri vörn, leituðu inn í teig á Marko sem gat þá fundið menn fyrir utan og sigldu sigrinum að lokum í höfn. Mikið af körfum úr hraðaupphlaupum gerði þetta líka auðvelt fyrir Þór í kvöld.Bestu leikmenn vallarins Marko Bakovic var fremstur fyrir Þórsara í kvöld og gat alltaf skorað þegar liðið þurfti á því að halda. Marko skoraði 27 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og varði þrjú skot. Sebastian Mignani átti loks góðan leik fyrir Þór og skoraði 18 stig ásamt því að gefa 6 stoðsendingar. Sebastian setti fjóra þrista í sex tilraunum og hitti úr yfir helmingi allra skota sinna í kvöld. Fjölnir naut góðs af framlagi Jere Vucica í kvöld. Jere lauk leik með 27 stig og 13 fráköst. Viktor Moses var sömuleiðis ágætur með 24 stig og 9 fráköst.Tölfræði sem vakti athygli Bæði lið pössuðu vel upp á boltann í leiknum í kvöld og töpuðu aðeins átta boltum. Fyrstu tíu mínútur leiksins töpuðu liðin samtals aðeins einum slíkum! Ósamræmið í villufjölda er ekki mikill (10 gegn 17), en mestu skipti líklegast hvað Þór fékk mörg stig úr hraðaupphlaupum, 21 stig gegn aðeins 5 hjá Fjölni.Hvað gekk illa? Fjölnir átti í erfiðleikum með að stöðva Marko Bakovic í leiknum í kvöld og voru mjög uppteknir af dómgæslunni á köflum í leiknum. Það gæti hafa verið ósamræmi þar en liðið hætti að spila á köflum til að kvarta í dómurum leiksins. Þeir uppskáru m.a. tæknivillu fyrir það og misstu kannski aðeins einbeitinguna vegna þess. Stærsti þátturinn var líklegast sá að þeir gátu ekki haldið aftur af sókn Þórs, sem hitti mjög vel úr skotum sínum í dag.Hvað næst? Það er stutt í næstu leiki hjá liðunum vegna bikarleikjahlés og liðin munu bæði spila 6. febrúar eftir aðeins fjóra daga. Þór mætir í Mustad-höllina í annan mikilvægan leik til að reyna tryggja stöðu sína í úrslitakeppnissæti á meðan að Fjölnir tekur á móti ÍR-ingum í Dalhúsum.Friðrik Ingi: Þurftum að spila með ánægju og gleði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar var temmilega ánægður með sigur gegn Fjölni í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Hann ræddi um að liðið hans hefði unnið eftir að þeir náðu að finna jafnvægið í sókn og vörn hjá sér. „Menn föttuðu á seinustu tíu mínútunum að það væri engin ástæða til að vera að svekkja sig yfir hinu og þessu í leiknum. Ég ræddi það einmitt í einu leikhléinu að við yrðum áfram að gera það sem við vorum að gera framan af; að spila með ánægju og gleði,“ sagði Friðrik um hugarfarsbreytinguna sem hefði komið aftur jafnvægi á spil sinna manna á lokakafla leiksins. Leikurinn var ekki upp á hundrað hjá Þórsurum, benti Friðrik hins vegar réttilega á: „Já, alls ekki gallalaus leikur. Srdan lék aðeins lausum hala á einum kafla í leiknum, en við breyttum áherslum og náðum að loka á það. Þvinguðum þá í erfiðari skot og náðum þá taktinum aftur.“ Þór heimsækir næst Grindavík á útivelli, en þeir hafa hingað til ekki átt góðu gengi að fagna utan eigin heimavallar. „Við erum að fara í leik við lið sem við erum að berjast um stöðu í deildinni við og sá leikur er mjög stór. Í sumum leikjum á útivelli höfum við verið býsna góðir og verið nálægt því að vinna en í öðrum höfum við verið arfaslakir,“ sagði Friðrik um slakt gengi liðsins í útileikjum. „Við þurfum að koma með rétt hugarfar og reyna svolítið að byggja á síðustu leikjum. Vörnin var lengstum betri í dag en hún var á móti Haukum í fjórða leikhluta en sóknarleikurinn á móti þeim var fínn. Við erum að reyna finna jafnvægið,“ sagði Friðrik, augljóslega einbeittur á þessu jafnvægi milli sóknar og varnar hjá sínum mönnum. „Þetta er bara áframhaldandi og stöðug vinna,“ sagði Friðrik að lokum og bætti við: „Við þurfum að gíra okkur upp í næsta leik eins og alla aðra leiki. Hver leikur núna er upp á líf og dauða.“Falur: Þetta er orðið fínt, þetta einelti Falur Harðarson var ómyrkur í máli gagnvart dómurum í leiknum í kvöld og reyndar yfir allt tímabilið. „Við fáum ekki dæmdar villur. Þetta er orðið fínt, þetta einelti á Viktor Moses.“ Viktor Moses var í harðri baráttu við framherja Þórs í kvöld en dróg aðeins tvær villur í öllum leiknum. „Það væri gaman að taka saman hvað maður sem spilar svona mikið undir körfunni fær aldrei dæmdar villur. Í dag lendir hann mörgum sinnum í gólfinu og ég er orðinn þreyttur á þessu,“ sagði Falur um meint villuleysi í leiknum. Fjölnir dróg aðeins tíu villur í öllum leiknum á meðan að Þór nældi sér í 16 slík. Fjölnir eru að sögn flestra fallnir og þessi leikur var mögulega seinasti naglinn í kistu þeirra. Falur sagði að liðið hefði einmitt talað um það í gær hvernig þeir myndu reyna að nálgast síðustu deildarleiki tímabilsins. „Við ætlum bara að hafa gaman af þessu, spila körfubolta, fá að keppa í þessari deild og gera okkar besta í hverjum leik.“ Honum fannst liðið hans spila af festu í kvöld og að þeir hefðu aldrei hætt þó að staðan hafi verið erfið. „Það var engin að gefa eftir,“ sagði Falur og úrslitin voru heldur ekki örugg fyrr en á seinustu 30 sekúndum leiksins. „Með smá heppni hefðum við getað tekið þennan leik,“ sagði Falur og leit ekki út fyrir að vera mikið að stressa sig á þessari viðureign. Falur bætti við að lokum að þó lokaniðurstaðan væri komin þá ætluðu hans leikmenn áfram að leggja fram. „Allir leikir eins héðan af, við höldum bara áfram ótrauðir.“ Dominos-deild karla
Þór Þorlákshöfn tók á móti Fjölni í kvöld í Dominosdeild karla. Þórsarar voru fyrir leikinn í áttunda sæti í deildinni en samt ekki nema einum sigri frá fallsæti. Fjölnismenn voru svo gott sem fallnir fyrir leikinn en gátu alveg eyðilagt fyrir heimamönnum með sigri. Leikurinn var jafn lengstum en á lokakaflanum náði Þór forystunni og vann að lokum 90-82. Hvorugt lið gat skilið sig frá hinu í upphafi leiks og ljóst að sóknarleikurinn var góður hjá báðum liðum í fyrstu. Eftir því sem leið á leikhlutann tóku heimamenn forystuna og eftir góðan lokasprett leiddu þeir með sjö stigum í fyrstu leikhlutaskiptunum. Fjölnir átti afleitar fimm mínútur í byrjun annars leikhlutans og gátu aðeins skorað fimm stig á meðan að Þórsarar héldu áfram að skora og auka forskot sitt. Gestirnir fóru loks að hitta betur seinni fimm mínúturnar og voru aðeins níu stigum frá heimamönnum í hálfleik eftir að hafa misst þá fimmtán stigum frá sér um miðbik leikhlutans. Þórsmenn komu ekki nægilega beittir inn í seinni hálfleikinn og hleyptu stórskyttu Fjölnis, Srdan Stojanovic, í nokkra þrista. Sjálfstraustið kom aðeins til baka hjá gestunum og liðin hófu að skiptast á að leiða í leiknum. Að lokum setti Srdan galopin þrist eftir sóknarfrákast og Fjölnir fóru með eins stigs forystu inn í lokaleikhlutann. Marko Bakovic hafði átt góðan leik fram að þessu og náði að halda því áfram í lokafjórðungnum. Í hvert sinn sem að liðið þurfti á körfu að halda gat hann fundið leið til að skora yfir framherja Fjölnis og halda þannig aftur af þeim. Þór Þorlákshöfn vann leikinn að lokum 90-82.Af hverju vann Þór? Þórsarar gátu fundið jafnvægið í leik sínum í lokafjórðungnum eftir að hafa gefið eftir í þriðja leikhluta. Þeir fóru að spila betri vörn, leituðu inn í teig á Marko sem gat þá fundið menn fyrir utan og sigldu sigrinum að lokum í höfn. Mikið af körfum úr hraðaupphlaupum gerði þetta líka auðvelt fyrir Þór í kvöld.Bestu leikmenn vallarins Marko Bakovic var fremstur fyrir Þórsara í kvöld og gat alltaf skorað þegar liðið þurfti á því að halda. Marko skoraði 27 stig, tók 8 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og varði þrjú skot. Sebastian Mignani átti loks góðan leik fyrir Þór og skoraði 18 stig ásamt því að gefa 6 stoðsendingar. Sebastian setti fjóra þrista í sex tilraunum og hitti úr yfir helmingi allra skota sinna í kvöld. Fjölnir naut góðs af framlagi Jere Vucica í kvöld. Jere lauk leik með 27 stig og 13 fráköst. Viktor Moses var sömuleiðis ágætur með 24 stig og 9 fráköst.Tölfræði sem vakti athygli Bæði lið pössuðu vel upp á boltann í leiknum í kvöld og töpuðu aðeins átta boltum. Fyrstu tíu mínútur leiksins töpuðu liðin samtals aðeins einum slíkum! Ósamræmið í villufjölda er ekki mikill (10 gegn 17), en mestu skipti líklegast hvað Þór fékk mörg stig úr hraðaupphlaupum, 21 stig gegn aðeins 5 hjá Fjölni.Hvað gekk illa? Fjölnir átti í erfiðleikum með að stöðva Marko Bakovic í leiknum í kvöld og voru mjög uppteknir af dómgæslunni á köflum í leiknum. Það gæti hafa verið ósamræmi þar en liðið hætti að spila á köflum til að kvarta í dómurum leiksins. Þeir uppskáru m.a. tæknivillu fyrir það og misstu kannski aðeins einbeitinguna vegna þess. Stærsti þátturinn var líklegast sá að þeir gátu ekki haldið aftur af sókn Þórs, sem hitti mjög vel úr skotum sínum í dag.Hvað næst? Það er stutt í næstu leiki hjá liðunum vegna bikarleikjahlés og liðin munu bæði spila 6. febrúar eftir aðeins fjóra daga. Þór mætir í Mustad-höllina í annan mikilvægan leik til að reyna tryggja stöðu sína í úrslitakeppnissæti á meðan að Fjölnir tekur á móti ÍR-ingum í Dalhúsum.Friðrik Ingi: Þurftum að spila með ánægju og gleði Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar var temmilega ánægður með sigur gegn Fjölni í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Hann ræddi um að liðið hans hefði unnið eftir að þeir náðu að finna jafnvægið í sókn og vörn hjá sér. „Menn föttuðu á seinustu tíu mínútunum að það væri engin ástæða til að vera að svekkja sig yfir hinu og þessu í leiknum. Ég ræddi það einmitt í einu leikhléinu að við yrðum áfram að gera það sem við vorum að gera framan af; að spila með ánægju og gleði,“ sagði Friðrik um hugarfarsbreytinguna sem hefði komið aftur jafnvægi á spil sinna manna á lokakafla leiksins. Leikurinn var ekki upp á hundrað hjá Þórsurum, benti Friðrik hins vegar réttilega á: „Já, alls ekki gallalaus leikur. Srdan lék aðeins lausum hala á einum kafla í leiknum, en við breyttum áherslum og náðum að loka á það. Þvinguðum þá í erfiðari skot og náðum þá taktinum aftur.“ Þór heimsækir næst Grindavík á útivelli, en þeir hafa hingað til ekki átt góðu gengi að fagna utan eigin heimavallar. „Við erum að fara í leik við lið sem við erum að berjast um stöðu í deildinni við og sá leikur er mjög stór. Í sumum leikjum á útivelli höfum við verið býsna góðir og verið nálægt því að vinna en í öðrum höfum við verið arfaslakir,“ sagði Friðrik um slakt gengi liðsins í útileikjum. „Við þurfum að koma með rétt hugarfar og reyna svolítið að byggja á síðustu leikjum. Vörnin var lengstum betri í dag en hún var á móti Haukum í fjórða leikhluta en sóknarleikurinn á móti þeim var fínn. Við erum að reyna finna jafnvægið,“ sagði Friðrik, augljóslega einbeittur á þessu jafnvægi milli sóknar og varnar hjá sínum mönnum. „Þetta er bara áframhaldandi og stöðug vinna,“ sagði Friðrik að lokum og bætti við: „Við þurfum að gíra okkur upp í næsta leik eins og alla aðra leiki. Hver leikur núna er upp á líf og dauða.“Falur: Þetta er orðið fínt, þetta einelti Falur Harðarson var ómyrkur í máli gagnvart dómurum í leiknum í kvöld og reyndar yfir allt tímabilið. „Við fáum ekki dæmdar villur. Þetta er orðið fínt, þetta einelti á Viktor Moses.“ Viktor Moses var í harðri baráttu við framherja Þórs í kvöld en dróg aðeins tvær villur í öllum leiknum. „Það væri gaman að taka saman hvað maður sem spilar svona mikið undir körfunni fær aldrei dæmdar villur. Í dag lendir hann mörgum sinnum í gólfinu og ég er orðinn þreyttur á þessu,“ sagði Falur um meint villuleysi í leiknum. Fjölnir dróg aðeins tíu villur í öllum leiknum á meðan að Þór nældi sér í 16 slík. Fjölnir eru að sögn flestra fallnir og þessi leikur var mögulega seinasti naglinn í kistu þeirra. Falur sagði að liðið hefði einmitt talað um það í gær hvernig þeir myndu reyna að nálgast síðustu deildarleiki tímabilsins. „Við ætlum bara að hafa gaman af þessu, spila körfubolta, fá að keppa í þessari deild og gera okkar besta í hverjum leik.“ Honum fannst liðið hans spila af festu í kvöld og að þeir hefðu aldrei hætt þó að staðan hafi verið erfið. „Það var engin að gefa eftir,“ sagði Falur og úrslitin voru heldur ekki örugg fyrr en á seinustu 30 sekúndum leiksins. „Með smá heppni hefðum við getað tekið þennan leik,“ sagði Falur og leit ekki út fyrir að vera mikið að stressa sig á þessari viðureign. Falur bætti við að lokum að þó lokaniðurstaðan væri komin þá ætluðu hans leikmenn áfram að leggja fram. „Allir leikir eins héðan af, við höldum bara áfram ótrauðir.“
Pétur leitar að nýjum Bandaríkjamanni: „Fjölhæfari leikmann, einhvern sem getur leyst margar stöður“
Uppgjörið: ÍR - Keflavík 79-91 | Kanalausir Keflvíkingar sáu til þess að ÍR fagnaði ekki fyrsta sigrinum