Veðurstofan spáir hægri breytilegri átt víðast hvar á landinu í dag og úrkomulitlu veðri. Í kvöld sé þó von á næstu lægð sem mun færa okkur hvassa austanátt og snjókomu, fyrst við suðurströndina en síðar í öllum landshlutum.
Gular viðvaranir taka gildi á Suðurlandi, við Faxaflóa og Suðausturlandi í kvöld og gilda til morguns. Er spáð austan og norðaustan 15 til 23 metrum á sekúndum þar sem hvassast verður undir Eyjafjöllum, á Snæfellsnesi og í Öræfum. Má búast við erfiðum akstursskilyrðum.
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að austanáttin færi okkur mildara loft þar sem hitastigið mun vera allt að sjö stigum hlémegin fjalla sunnantil á landinu.
„Á morgun verður síðan allhvöss norðaustanátt með snjókomu eða éljum norðan- og austantil. Síðdegis snýst síðan í sunnanátt með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands.
Á sunnudaginn lýtur út fyrir hægviðri með stöku éljum í flestum landshlutum en björtu inná milli,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag og mánudag: Suðaustan 5-10 m/s og snjó- eða slydduél, en úrkomulítið norðanlands. Frost 0 til 5 stig, en víða frostlaust við suður- og austurströndina.
Á þriðjudag: Norðaustlæg átt 5-13 m/s. Dálítil él um landið austanvert, en annars skýjað með köflum og yfirleitt þurrt. Frost 2 til 10 stig, kaldast í innsveitum.
Á miðvikudag: Norðlæg átt með snjókomu eða éljum fyrir norðan, en þurrt og bjart að mestu syðra. Frost 0 til 8 stig.
Á fimmtudag: Útlit fyrir norðaustlæg átt með dálitlum éljum. Hiti breytist lítið.