Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins búa um fjörutíu Íslendingar í Kína en erfitt er að staðfesta fjöldann. Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins hvatti í gær Íslendinga í Kína að láta vita af sér og hafa sjö beðið um skráningu.
Snorri Sigurðsson og eiginkona hans, Kolbrún Anna Örlygsdóttir, eru meðal Íslendinga í Kína og hafa búið í tvö ár í Peking. Snorri starfar við stofnun sem sér um ráðgjöf til bænda um kúabúskap.

Hann segir götur Peking vera auðar enda sé enn frí vegna nýársins og margir haldi til síns heima þá.
„Fólk er ekki búið að snúa aftur í borgina. Þannig að hér er rólegt, lítil umferð og lítið af fólki. Fríinu átti að ljúka á föstudag en búið er að framlengja því fram yfir helgi vegna veirunnar,“ segir Snorri.
Hátt í hundrað manns hefur greinst með veiruna í Peking en Snorri segir fólk greinilega vant því að takast á við svona áföll og kann að bregðast við vírussmiti. Hann og kona hans hafa aftur á móti aldrei upplifað svona aðstæður.
„Það er eins og við séum í stofufangelsi. Nú er frívika og alla jafna þegar maður er í fríi þá gerir maður eitthvað en það eru allir staðir lokaðir til að koma í veg fyrir að fólk hitti ókunnuga. Fyrir útlendinga er þetta hálfgerð einangrun en við leysum það. Förum alveg í göngutúra og svona en bara vel búin grímum og öðru.“